Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
2.3.2008 | 21:28
Þursar á tónleikum, á skólabekk og pakkaðir í kassa.
Þursarnir héldu hreint frábæra tónleika í Laugardalshöllinni á laugardagskvöldið fyrir rúmri viku. Þar fluttu þeir tónlist sína sem spannar þrjár stúdíóplötur og eina hljómleikaplötu auk laga úr söngleiknum Gretti og kvikmyndinni Okkar á milli. Það sem var sérstakt við þessa tónleika er að lögin og útsetningar hafa verið endurskoðuð og breytt. Og að þetta var bara í þriðja skiptið sem þeir spila undir merkjum Þursaflokksins á síðustu tuttugu og þremur árum, ef ég man rétt.
Konsertinn byrjaði á hreint frábærri Þursa fantasíu eftir Ríkharð Örn Pálsson, Þursasíu, sem minnir mig nokkuð á handbragð George Martin með The Beatles, sem að mínu mati er ekki leiðum að líkjast. Caput hópurinn undir stjórn Guðna Franzsonar var hreint afbragð, skemmtilega samsettur: Tvær fiðlur, víóla, cello og bassi, glás af frábærum blásurum og tveimur slagverksmönnum. Fantasían var flutt af Caput án Þursa og tók hátt í korter í flutningi en var samt stytt útgáfa. Ríkharður studdist að mestu við lög af Þursabiti, annarri plötunni, aðeins eitt að fyrstu plötunni og eitt af Gæti eins verið, Ranimosk sem var þó í lykilhlutverki sem bókastoðir í upphafi og enda verksins. Inn á milli heyrðum við stef úr Sigtryggur vann, Tóbaksvísum, Stóðum tvö í túni, Brúðkaupsvísum, Skriftagang, Bannfæringu og Æra Tobba.
Að Fantasíunni lokinni gengu Þursarnir á svið. Þeir eru allir, nema kannski Rúnar, uppaldir rokktónlistarmenn, en lesa líklega allir nótur. Hins vegar er Caput hópurinn, líklega allur uppalinn í klassík og við lestur nótna, þó eflaust hafi sumir fiktað við rokktónlist (Jóel Páls og Siggi Flosa reyndar hvorki rokk né klassík). Hópurinn var ekki stór þannig að hver og einn varð að vera vel á verði í sínu hlutverki og samhæfingin varð að vera mikil. Tónlist Þursanna, sér í lagi á fyrstu tveimur plötunum, er heldur ekki nein einföld poppmúsík eða yfirveguð klassík, þannig að samhæfing Caputs og Þursanna varð að vera í versta falli mjög góð ef ekki ætti illa að fara. Og ég held að ég hafi ekki heyrt feilnótu á tónleikunum. Og þó að ég sæti næstum út við vegg á 16. bekk þá var sándið mjög gott, kannski sent út í mónó.
Þeir fóru í gegnum plöturnar að mestu í tímaröð og Caput hópurinn átti mikinn þátt í að endurvekja lögin og gaf sumum þeirra aukið vægi. Það verður virkilega gaman að hlusta í plötuna þegar hún kemur út, sem væri synd ef ekki gerðist. Hinn formlegi konsert endaði með Ragnheiði Gröndal í gestahlutverk, stórglæsilegri, í hvítu, en hún söng Gegnum holt og hæðir. eg hélt reyndar að konsertinn væri það formlegur að þeir sinntu uppklappi, eþað gerðist og þeir komu og fluttu þrjú lög án hjálpar Caput, og það var ekki að heyra að þeir hafi ryðgað á þessum 16 árum frá því að þeir hættu (reyndar eru þessir strákar að spila meira og minna saman allan tímann í arðbærari hljómsveit). Þeir tóku lögin þrjú sem mér fannst vanta í prógrammið, Sigtryggur vann, Nútíminn og aftur Gegnum holt og hæðir (en án Ragnheiðar) og bara gerðu það vel. Þeir voru klappaðir upp aftur og þá kom pönkhljómsveit Tómasar M Tómassonar (Þursarnir án Egils) og flutti gamla góða lagið Jón var kræfur karl og hraustur, eins og þeir gerðu í Þjóðleikhúsinu forðum sælla minninga. Og þá var allt fullkomnað!
Endurmenntun í Þursatónlist: þjóðlegur arfur hvað er nú það?Einhverjum datt það snjallræði í hug að halda námskeið um Hinn Íslenzka Þursaflokk. Egill fékk til liðs við sig Ríkharð Örn, Rósu Þorsteinsdóttur frá Árnasafni og Aðalheiði Guðmundsdóttur, þjóðfræðing. Námskeiðið samanstóð af þremur þriggja tíma fyrirlestrum (átti víst að vera tveggja en fyrirlesarar voru áhugasamir og áheyrendur líka) og heimsókn á fjögurra tíma æfingu Þursanna og Caput viku fyrir konsert. Fyrsti fyrirlesturinn fjallaði um munnlega kvæða og sönghefð og þjóðlagið og sá Rósa um þann þátt. Í raun er ekki mikið til af gamalli íslenskri tónlist nema helst sálmum. Ríkharður tengdi síðan saman þjóðlög og klassík, en í flestum verkum meistaranna er að finna eitt eða fleiri þjóðlagastef, sem eflaust voru sett inn til að auka vinsældir nýrra verka. Egill kynnti síðan tilurð Þursanna sem hann rakti til kynna hans og Rúnars í tónlistarskóla og hann fór einnig yfir áhrifavalda Þursanna sem auk augljósra þjóðlagarokksveita voru líka tónlistarkennarar Egils, Engel Lund og Þorgerður Ingólfsdóttir, sem vöktu áhugann. Reyndar áttu flest lönd sína Þursa löngu fyrr og ekkert skrýtið að þeir skulu hafa orðið til. Eitt leiddi af öðru allir voru forvitnir og leitandi, hvort sem það var í gamalt rokk, mótmælasöngva, klassík, framandi tónlist frá Indlandi, Kína, Japan, eða norræna forntónlist. Músíkantar voru líka löngu farnir að semja öðru vísi texta, mun fjölbreyttari takta. Við Íslendingar eigum reyndar mun fátækari heimildir, helst var það lagasafn séra Bjarna Þorsteinarsonar, sem var fóður Þursanna.
Egill kláraði það spjall á öðru kvöldinu, Aðalheiður fór yfir sögu dansanna á Íslandi og danskvæðanna, sem virðast ekki hafa lifað af bannfæringar klerkanna hér á landi eins vel og annars staðar. Enda öfgasinnuð þjóð. Ríkharður sagði síðan frá tilurð svítunnar Þursasíu og útbítti nótum.
Viku fyrir konsertinn var æfing í Laugardalshöll sem okkur var boðið á. Oftast er nú lítið spennandi að mæta á æfingar annarra, en þessi var þó gefandi. Þarna sáum við nokkuð vel muninn á rokkmúsíköntum, þó vel menntaðir séu og klassískum músíköntum. Við heyrðum ekki mörg mistök en þau sem heyrðust voru fyrst og fremst tæknileg, og skýringin líklega munurinn á að lesa músíkina (og þá oft næstu línur á eftir) og að hlusta á músíkina, en allt kom þetta rétt saman á endanum. Það var greinileg spenna í samt afslöppuðu umhverfi og allir vel undirbúnir. Frábær upplifun.
Þessi endurmenntun var bæði Agli og hans félögum og Endurmenntun Háskóla Íslands til sóma.
5 diska viðhafnarkassi með Þursunum.Í tilefni tónleikanna var gefinn út kassi (box set) með öllum fjórum plötum Þursanna í nýjum umbúðum með nýjum leiðurum með hverri plötu auk fimmtu plötunnar, sem innheldur hluta af upptökunum að fimmtu plötunni Ókominni forneskju, sem aldrei kom út og af hljómleikum. Þursarnir gáfu reyndar út þrjú lög á sándtrakkinu af Okkar á milli, en þau þóttu ekki nógu góð á plötuna, en líklega er skýringin frekar sú að Þursanafnið hafi frekar verið notað og að Egill hafi einn tekið upp þau lög ef ég man rétt. Þau voru alveg nógu góð að mínu mati. Hreint frábært framtak, sem ætti að gefa öllum fermingarbörnum í ár!
p.s. það eru komnar upptökur á youtube - þrjár þegar ég tékkaði síðast
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2008 | 01:04
Mike Smith, söngvari Dave Clark Five er látinn
Dave Clark Five var ein af mínum uppáhaldshljómsveitum á 7. áratugnum. Söngvari þeirra var hreint magnaður og hafði án efa áhrif á marga, meðal annars Bruce Springsteen. Hljómsveitin náði frægð og frama með Glad All Over, síðan komu mörg frábær lög, Bits And Pieces, Because, Everybody Knows, I Like It Like That, Good Old Rock n Roll syrpan, Do You Love Me, Come Home, Catch Us If You Can , You Got What It Takes og Over And Over.
Mike Smith dó í gær 64 ára að aldri eftir barátti upp á líf og dauða eftir slys í september 2003, en þá lamaðist hann á neðri hluta líkamans og var að mikið skaddaður allur. Hann hafði verið á spítala þangað til í desember síðastliðinn en þá náði hann að komast á tónleika með vinum sínum Bruce Springsteen & E Street Bandinu.
Dave Clark Five verða innlimaðir í Rock n Roll Hall Of Fame á mánudaginn eftir rúma viku og á síðu sinni skrifaði hann fyrir skömmu hvað hann hlakkaði mikið til að mæta. En eins oft gerist þegar varnarkerfi líkams er lélegt þá má ekki mikið bera út af og hann lést úr lungnabólgu.
Dave Clark Five var á tímabili langvinsælsta hljómsveitin í Bandaríkjunum, en þeir gáfu út 16 stúdíóplötur í Bandaríkjunum á milli 1964 og 1972! Mike gaf síðan út eina plötu með Mike d'Abo úr Manfred Mann og loks eina sólóplötu.
Þótt furðulegt og fáránlegt sé þá er ekkert fáanlegt á CD með Dave Clark Five í dag, þrátt fyrir það að Dave Clark hafi verið óvenju séður og átt útgáfuréttinn sjálfur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar